Menu
Íslenska

Morgun hugleiðsla frá Rudolf Steiner sem þróar andlegan styrk

Rudolf Steiner

Hér er stutt morgun hugleiðsla frá Rudolf Steiner. Hann var upphafsmaður Waldorf skólastefnunnar, hugmyndasmiður Bíódínamískrar ræktunar og var mjög virkur innan Guðspekifélagsins (Theosophy) þar til hann skildi við það og stofnaði sitt eigið félag sem hann kallaði Mannspekifélagið (Anthroposophy).

Rudolf Steiner var mjög merkilegur maður, höfundur ótal bóka um allt á milli himins og jarðar. Hann skrifaði ótal bækur um andleg efni og sá meira og betur en flestir inn í aðra heima en efnisheiminn sem við flest þekkjum best.

Það má nálgast nokkar af bókum hans hjá íslenska Mannspekifélaginu í íslenskri þýðingu. Annars er líka hægt að fá þær mjög ódýrt á Amazon fyrir Kindle lestölvu í enskri þýðingu.

Hér er hugleiðslan:

Þessi hugleiðsla styrkir innri tengingu þína við allt sem er. Guðdómin innra með þér og heilagleikan sem gegnsýrir alla veröldina.

Steiner mælir með því að gera þessa hugleiðslu strax þegar við vöknum. Best er að sitja beinn í baki með hendur í kjöltu. Það sem skiptir mestu máli er að finna þægilega stellingu sem þú getur setið í í 10 til 15 mínútur.

  1. Tæmdu hugann, leiddu hann frá öllu ytra og innra áreiti.
  2. Einbeittu þér að einni hugsun, t.d. hvíld, til að ná innri ró og láttu hana svo fjara út þannig að engin hugsun er eftir.
  3. Einbeittu þér að þessum setningum í 5 mínútur: „Í hinum tærustu geislum ljóss glitrar Guð heimsins. Í hinni tærustu ást til alls sem lifir flæðir út guðdómleiki sálar minnar. Ég hvíli í Guð heimsins. Þar finn ég mig, innan Guðs heimsins.”
  4. Öndunaræfingar: Anda inn 2 eða 3 sekúndur, anda út 4 eða 6 sekúndur, halda andanum úti 6 eða 9 sekúndur. Þegar þú heldur andanum úti í fyrsta skipti hugsar þú: ÉG ER og einbeitir þér að þriðja auganu. Í annað skipti sem þú heldur andanum úti hugsar þú:  ÞAÐ HUGSAR og einbeitir þér að hálsstöðinni. Í þriðja skipti hugsar þú: HÚN FINNUR og einbeitir þér að handleggjum og höndum. Í fjórða skipti hugsar þú: HANN VILJAR og einbeitir þér að öllu yfirborði líkamans.
  5. Einbeittu þér í smá stund fullkomlega að hugsuninni ‘Kraftur minn’ eða ‘Ég í mér’ eða ‘Ég ætla’. Þú velur það sem höfðar mest til þín í hvert sinn.
  6. Einbeittu þér fullkomlega í 5 mínútur að hugmynd þinni um Guð. Það þarf að vera gert í fullkominni einlægð og heiðarleika.

Áhrif hugleiðslunnar

Þessi hugleiðsla þróar með þér tenginu við allt sem lifir og við sjálfan sköpunarkraftinn. Þú tengist alheimshugsuninni og sál heimsins og hægt og rólega ferð þú að finna fyrir skýari tengingu við guðdómleikann. Þú ferð að finna að guð er ekki einhvers staðar úti og aðskilinn þér heldur býr neisti guðdómsins innra með þér Þú finnur að þú getur fundið þessa tengingu ef þú gefur þér tíma til að leita inn á við.

Ef þú gerir þessa hugleiðslu í nokkrar vikur þá muntu finna hvernig hendurnar vilja leita út á við í þeim hluta hugleiðslunnar þegar þú einbeitir þér að þeim. Leyfðu höndunum að hreyfast ef þær vilja það en ekki leita eftir því, leyfðu því að gerast sjálfkrafa ef það gerist.

Í Það hugsar táknar Það alheimshugsunina sem ætti að lifa eins og ópersónulegur kraftur í öllum orðum okkar. Í Hún finnur táknar Hún sál heimsins, Anima Mundi. Þetta táknar að við eigum að finna en ekki á hversdagslegan persónulegan hátt heldur ópersónulega, eins og sál heimsins finnur. Í Hann ætlar táknar Hann Guð, Hann hvers vilji umlykur alla okkar verund.

Kvenorkan og karlorkan – Shakti og Shiva

Það er mikilvægt að taka fram að þarna er Steiner ekki að segja að Guð sé karl heldur er hann að tala inn í táknfræðiheim dulspekinnar. Þar sem kvenorkan Shakti er sköpunin, hreyfingin og tilfinningin, frumorkan. Kundalini snákurinn sem liggur falinn í fyrstu orkustöðinni okkar. Karlorkan er Shiva andinn sem kemur að ofan, meðvitundin handan egósins, sem við tengjumst í gegnum hvirfilorkustöðina.

Við höfum öll bæði karl og kvenorku og samruni þeirra tveggja innra með okkur er lykillinn að andlegri uppljómun. Öll andleg vinna snýst um að hreinsa stíflur í orkustöðvunum okkar þannig að Shakti, kundalini kvenorkan geti farið beina leið upp í hvirfilstöðina. Þar sameinast hún Shiva, karlorkunni, í heilögu hljónabandi andlegrar uppljómunar.

Góða skemmtun!

 

No Comments

    Leave a Reply

    This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.